vefpostur 1

sendokkurpost 1

leyfi

Foreldrar

Þátttaka í skólastarfinu

Foreldrar/forráðamenn bera frumábyrgð á uppeldi barna sinna. Á þeim hvílir sú skylda að börnin sæki skóla og að þau séu eins móttækileg fyrir þeirri menntun sem skólinn annast og framast er unnt.
Öll þátttaka foreldra í skólastarfinu er mikilvæg. Má þar nefna virka þátttöku í foreldrafélagi og bekkjarstarfi. Ýmsir þættir í hinu daglega skólastarfi snúa beint að foreldrum og er ekki síður mikilvægt að þeir séu virkir þátttakendur í þeim hluta t.d. með því að fylgjast með heimanámi barna sinna, mæta á fundi s.s. námsefnis- kynningar og bekkjarkvöld, aðstoða í ferðum og koma með innlegg í kennsluna þegar það á við, t.d. hvað varðar kynningar á starfsgreinum.
Foreldra- nemendasamtöl

 

Í vetur verða tvö foreldra/nemendasamtöl, í september og febrúar. Í febrúarsamtali er afhentur vitnisburður fyrir haustönn.

 

Á þessum fundum  er farið yfir náms- og félagslega stöðu nemandans með foreldrum/forráðmönnum og nemendum sjálfum. Auk þessa eru kennarar með vikulega viðtalstíma þar sem foreldrum gefst færi á að hafa samband við þá eða öfugt.

 

 

 
Haustfundir
Að hausti eru haldnir fundir með foreldrum hvers árgangs. Foreldrar fyrstu bekkinga fá ítarlega kynningu á starfsemi skólans og húsnæði auk almennrar kynningar umsjónarkennara á skólastarfinu og skólareglum sem foreldrar í öllum árgöngum fá.
Þar gefst tækifæri til að kynna og ræða vinnubrögð, námskröfur og námsmat auk almennra atriða sem gilda í hópunum og bekkjarsamstarf vetrarins með foreldrum. Fyrirkomulag samstarfs, vinahópa, bekkjarkvöld, o.fl. Vel hefur gefist að foreldrarnir skipti sér í hópa og hver hópur verði ábyrgur fyrir einni samkomu á vetri. Margir foreldrar eru óöruggir þegar setja skal reglur sem snerta barnið þeirra. Skólinn getur verið mikilvægur vettvangur þar sem foreldrar koma saman og ræða sameiginleg málefni barnanna. Þegar kemur að viðkvæmum málum sem snerta þau lög og reglur sem í gildi eru, hvetja kennarar foreldra til að leita halds og trausts þar í en ekki búa til sína eigin reglur eða hafa engar.
Foreldrar kjósa fulltrúa til setu í foreldrafélaginu. Það er því mikilvægt að vel takist til. Vel hefur gefist að fá þá foreldra sem eru að láta af störfum til að finna tvo úr foreldrahópnum fyrir komandi vetur. Kennurum er bent á kynningarbækling Samfoks þegar kemur að skipulagningu þessara funda. Þar er að finna hugmyndir að fundum sem ætlað er að efla samstarf foreldra innbyrðis. 
Stuðla skal að stöðugu og góðu sambandi við foreldra/forráðamenn. Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og skóla og samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, gagnkvæmu trausti, samábyrgð og gagnkvæmri upplýsingamiðlun.
FORELDRAR VINSAMLEGAST ATHUGIÐ AÐ:
           
 • haga klæðnaði barnanna þannig að þau geti verið úti í frímínútum
 • láta börnin vera í skóm sem fljótlegt er að komast í og úr
 • merkja skó og ytri fatnað barnanna
 • setja endurskinsmerki á allar yfirhafnir
 • allt sé í röð og reglu í skólatöskum barnanna
 • fylgjast með heimanámi barnanna
 • tilkynna veikindi nemenda eða önnur forföll eins fljótt og hægt er
 • ef nemandi á að vera inni í frímínútum vegna lasleika verður hann að hafa skriflega beiðni um það frá foreldrum
 • notkun hjólabretta, hjólaskauta og hlaupahjóla er óheimil á skólatíma á skólalóð
 • daglega verða ótal hlutir sem nemendur eiga, eftir í skólanum, aðallega húfur, vettlingar og sokkar
 • tjón á eigum nemenda er ekki bætt nema það verði rakið til mistaka starfsfólks skólans eða vanbúnaðar skólahúsnæðis
 • í skólanum gilda almennar umgengis- og kurteisisreglur
 • foreldrar eru ávallt velkomnir í skólann á skólatíma
 • flutningur milli skóla fer fram í Rafrænni Reykjavík
Umsjónarkennari viðkomandi nemanda hefur heimild til að veita leyfi úr einstökum kennslustundum allt að tveimur skóladögum að fengnum rökstuddum ástæðum foreldra. Um lengri leyfi þarf að sækja skriflega til skólastjóra. Í lögum um grunnskóla segir svo: “Sæki forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu frá skólasókn er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu í samráði við umsjónarkennara telji hann til þess gildar ástæður. Forráðamaður skal þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.” Umsóknareyðublöð um leyfi frá skóla eru afhent forráðamönnum á skrifstofu skólans.
Kennsla er aðeins felld niður vegna veðurs í neyð. Ef ekki hefur komið tilkynning frá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur eða skólanum um slíkt en foreldrar telja veður viðsjált og hættulegt börnum sínum, halda þeir þeim að sjálfsögðu heima. Slík forföll ber að tilkynna eins og önnur forföll. Ef óveður skellur á meðan nemendur eru í skólanum þurfa foreldrar að sækja börn sín í skólann eða tryggja heimför þeirra á annan hátt.
Að lokum viljum við benda foreldrum á að þeir tali jákvætt um skólann og kennara því það er börnunum fyrir bestu. Ef ykkur mislíkar eitthvað, eruð óánægð eða vantar upplýsingar talið þá við kennarann eða stjórnendur skólans. Börnin taka foreldra sína til fyrirmyndar og tileinka sér gjarnan viðhorf þeirra oft án þess að skilja hvað liggi að baki. Neikvæð umræða um skólann heima gerir barninu erfitt fyrir að umgangast starfsfólk skólans.

Prenta | Netfang

 

  Hér er að finna ýmsar upplýsingar fyrir foreldra og frá foreldrafélaginu.

Prenta | Netfang

menntastefna

Heimasíða Reykjavíkur

          is round  en round pol round