Skip to content

Forvarnaráætlun

Forvarnaráætlun Grandaskóla
Grandaskóli er skóli fyrir 6 – 12 ára nemendur.

Markmið:
– Að nemendur öðlist heilbrigða lífssýn.

Leiðir:
Frá 1. – 4. bekk þurfa nemendur að læra samvinnu og taka tillit til annarra. Þeir þurfa að temja
sér sjálfstæð vinnubrögð og sjálfsaga. Þessir þættir eru markvisst þjálfaðir allt frá fyrsta
skóladegi með margvíslegum hætti. Allir eru þeir undirstaðan fyrir ábyrgum nemendum sem
geta staðið á eigin sannfæringu. Skólastarfið endurspeglar þessi vinnubrögð með því að láta
nemendur vinna saman í hópum, litlum og stórum, innan bekkja og í annarri samvinnu, eins
og vinabekkjum, árgangablöndun og þemadögum sem eru á hverju ári. Sterk hefð er fyrir
samsöng í Grandaskóla en þá koma nemendur saman og að sýna samstillta hegðun og syngja
saman.Nemendur taka einnig þátt í samkomum einu sinni til tvisvar á ári þar sem þeir eru
hvattir til að lát hæfileika sína í ljós. Kennarar hvetja nemendur daglega til góðra samskipta
og tillitsemi í umgengi jafnt innan skóla sem utan. Nemendur þurfa að taka ábyrgð á eigin
hegðun og er lögð mikil áhersla á að leysa þau vandamál sem koma upp sem fyrst með
þátttöku þeirra sjálfra. Nemendur fá alltaf tækifæri til að bæta sig áður en lengra er farið.
Eftir því sem nemendur eldast og þroskast er farið að nálgast viðfangsefni eins og siðfræði,
heimspeki, kynfræðslu og fíkniefnafræðslu
Nemendur fræðast um heilbrigt líferni og mikilvægi þess að taka ábyrga afstöðu til fíkniefna.
Þeir fá fræðslu um reykingar og önnur fíkniefni og er bent á mikilvægi þess að taka sjálfstæða
afstöðu og láta ekki undan hópþrýstingi.
Þeir fá góða líkamlega þjálfun og fræðast um mikilvægi þess að hreyfa sig reglulega
og fá tækifæri til þess að matreiða hollan og góðan mat og fræðslu um næringarfræði.
Nemendur fá markvissa kynfræðslu og er bent á mikilvægi þess að taka ábyrgð á eigin
líkama. Hjúkrunarfræðingur kemur að þessari fræðslu og talar við nemendur um kynþroska og
þær breytingar sem verða á líkama og sál á þessu aldursskeiði.
Nemendur fá tækifæri til að kynna sér kristna siðfræði og tengja hana við íslenskt samfélag og
eru hvattir til umburðarlyndis gagnvart öðrum, hefðum og menningu.

Fyrirbyggjandi starf innan skólans:
Lífsleikni er kennd sem sérstök námsgrein frá og með 5. bekk Annars er hún hluti af mörgum
námsgreinum og daglegu starfi í skólanum.
Nemendaráð er starfandi í skólanum og gefur nemendum möguleika á því að taka þátt í mótun
og starfi skólans. Þetta er gert til þess að efla nemendur til að leitast við að leysa mál á
samvinnugrundvelli.
Nemendaverndarráð kemur saman einu sinni í viku og tekur fyrir mál einstakra nemenda.
Hjúkrunarfræðingur , skólalæknir, stjórnendur og sálfræðingur sitja fundi þess ásamt
bekkjarkennara ef þurfa þykir.Hjúkrunarfræðingur fylgist með heilsufari nemenda og tekur á
einstaka málum sem koma upp í samráði við nemendaverndarráð.
Ráðgjafarteymi er starfandi í skólanum, í því sitja tveir reynslumiklir kennarar, ritari og
deildarstjóri. Því er ætlað að vera kennurum til aðstoðar við lausnir í aga og félagsmálum.
Góð tengsl eru við leikskóla hverfisins. Námsefnið “Stig af stigi” er notað í yngstu bekkjum
og í elstu deildum leikskólanna er hafinn undirbúningur að notkun þess. Námsefni þetta er
ætlað til að auka samfellu milli skólastiga.
Gott samstarf er við Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, fjölskyldu- og skólaþjónustu Vesturbæjar, sálfræðingur skólans hefur þar aðsetur svo og kennslu-, félagsráðgjafar.
Frímínútnagæsla. Í hverjum frímínútum fylgjast 3 – 4 fullorðnir með leik barnanna á
skólalóðinni.
Skólinn leggur áherslu á gott samstarf við foreldra nemenda og heimili. Haldnir eru
kynningarfundir, foreldrum nýrra nemenda er sérstaklega boðið í skólann með börnum sínum
og haldin eru bekkjarkvöld 1 sinni til 2svar á vetri.
Í lok 7.bekkjar er sameiginlegur fundur foreldra, skólastjóra Hagaskóla, fulltrúa frá kirkjunni,
hverfislögregluþjóni, fulltrúa frá ÍTR og deildarstjóra Grandaskóla. Þar er rætt um þær
breytingar sem flutningur á milli skóla kallar á.
Brunavarnir. Stefnt er að því að hafa brunaæfingu á hverju ári. Rýmingaráætlun er til fyrir
skólann og í hverri álmu byggingarinnar er teikning af útgönguleiðum.
Eineltisáætlun er til í skólanum og einnig áætlun um hvernig brugðist skuli við áföllum.
Í skólanum er starfandi öryggistrúnaðarmaður.

Viðbrögð:
Ef upp kemur eineltismál er gripið til eineltisáætlunar
Lögð eru fyrir tengslakönnun í þeim bekkjum þar sem samskiptavandamál koma upp.
Málum einstakra nemenda sem eiga í náms- og/eða félagslegum erfiðleikum er vísað til nemendaverndarráðs sem vísar málinu síðan áfram til sérfræðinga ef þurfa þykir.
Ráðgjafar- og áfallateymi taka á þeim málum sem undir þau falla.
Ef nemendur eru uppvísir af því að reykja eða neyta áfengis er tafarlaust talað við þá og foreldra þeirra. Málinu vísað til nemendaverndarráðs og ákvarðanir teknar í samræmi við brot og aðstæður.