Skip to content

Sálfræðiþjónusta

Grandaskóli hefur aðgang að fjölskyldu– og skólaþjónustu Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða

Viðeigandi er að leita eftir ráðgjöf sálfræðings þegar náms- eða aðlögunarerfiðleikar koma upp hjá nemendum á grunnskólaaldri.

Erfiðleikarnir sem geta komið upp í skólagöngu barna og sálfræðingur fæst við eru of margvísleg til að hægt sé að gera þeim viðunandi skil hér. En dæmi eru eftirfarandi:

·       Barnið á við námserfiðleika að stríða í einni námsgrein eða fleirum. Það er mikilvægt að greining fari fram snemma á skólagöngu barnsins. Ákvörðun um magn sér- og stuðningskennslu til barnsins er m.a. tekin á grundvelli slíkrar greiningar. Einnig eru upplýsingar sem fram koma við greiningu á námserfiðleikum barnsins notaðir við skipulagningu á innihaldi sérkennslunnar.

·       Samskiptaörðuleikar barns við önnur börn, foreldra eða kennara.

·       Barnið verður fyrir óeðlilegri stríðni eða áreitni innan eða utan skólans.

·       Kvíði, kjarkleysi, óróleiki, reiðiköst eða önnur yfirdrifin tilfinningaleg viðbrögð hjá barninu.

·       Mætingarerfiðleikar, svo og breytingar á aðstæðum og áföll sem valda erfiðleikum í skóla.

Það eru oftast kennarar í samráði við foreldra sem vísa nemendum til sálfræðideildar. Foreldrar geta einnig haft frumkvæði að því að kennari vísi nemanda til sálfræðideildar. Foreldrar geta fengið ráðgjöf í gegnum síma ef þeir eru í vafa um hvort leita eigi eftir sálfræðiaðstoð fyrir barnið. Þeir geta einnig pantað viðtal hjá sálfræðingnum. Skilyrði fyrir því að sálfræðingur taki mál til úrlausnar er að umbeðnar upplýsingar í tilvísunarblaði séu veittar. Foreldri getur útfyllt tilvísunarblað í viðtali eða getur fengið eyðublað sent heim.

Viðtalstímar eru eftir samkomulagi. Æskilegt er að foreldrar hafi samráð við umsjónarkennara þegar þeir hyggjast leita eftir sálfræðiaðstoð því sálfræðingar hafa samráð við starfsmenn skóla við forgangsröðun mála sem tekin eru til úrvinnslu. Rétt er að benda foreldrum á að mikilvægt er að leita sérfræðiaðstoðar áður en smávægilegir erfiðleikar verða að óviðráðanlegu vandamáli.

Skrifstofa Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða er á Laugarvegi 77.