IMG_1798

Jafnréttisáætlun Grandaskóla

Jafnréttisáætlun Grandaskóla byggir á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10 frá 2008 og Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.

Ábyrgð
Skólastjóri Grandaskóla ber ábyrgð á jafnréttisáætlun og framkvæmd hennar.

Jafnrétti til náms
Í skólanum er unnið samkvæmt markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla þar sem jafnrétti er einn af grunnþáttum menntunar.

Allir nemendur Grandaskóla skulu hafa sömu tækifæri til náms og möguleika á því að taka þátt í öllu skólastarfi. Lögð er áhersla á réttindi og skyldur, gagnkvæma virðingu og jákvæð samskipti kynjanna í öllum verkefnum og starfsháttum.

Leitast skal við að búa nemendur undir jafna þátttöku í samfélaginu, í atvinnu og fjölskyldulífi.

 • Kennsla og viðfangsefni skulu vera fjölbreytt og höfða jafnt til drengja sem stúlkna.
 • Skoða skal með gagnrýni það námsefni sem sýnir staðlaðar kynjaímyndir eða mismunar kynjum.
 • Fræðsla um jafnrétti og mannréttindi er hluti af lífsleiknikennslu skólans.
 • Jafnréttisfræðsla fer fram í öllum árgöngum skólans.
 • Jafnréttissjónarmið skulu höfð að leiðarljósi í öllum námsgreinum.

Telji nemandi að jafnrétti sé brotið í Grandskóla skal hann leita til umsjónarkennara eða skólafélagsráðgjafa sem finna málinu farveg.

Launajafnrétti
Konum og körlum er starfa hjá Grandaskóla skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Laus störf, starfsþjálfun og endurmenntun

Starf sem laust er skal standa opið jafnt konum og körlum. Á því skulu einungis vera undantekningar sé til þess ætlast að viðkomandi starfsmaður sinni baðvörslu stúlkna eða drengja.

Stjórnendur Grandaskóla skulu tryggja að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum.

 • Þess skal gætt að í skólanum ríki jafnlaunastefna.
 • Konur og karlar skulu hafa jafna möguleika á launuðum viðbótarstörfum innanskólans.
 • Störf í skólanum skulu auglýst þannig að einstaklingar af báðum kynjum eigi rétt til umsókna. Velja skal þann umsækjanda sem hæfastur er til starfsins á grundvelli menntunar og reynslu.
 • Þegar ráðið er í ný störf og valið stendur á milli jafn hæfra einstaklinga af gagnstæðu kyni skal ráða þann einstakling sem er af því kyni sem er í minnihluta.
 • Við gerð símenntunaráætlunar sé þess gætt að tilboð séu við hæfi beggja kynja.
 • Allir starfsmenn eru hvattir til þess að sækja námskeið eða aðra endurmenntun sem nýtist þeim í starfi.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
Stjórnendur Grandaskóla skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera báðum kynjum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu.

 • Starfsmenn fái notið sveigjanleika í starfi þar sem hægt er að koma því við.
 • Konum og körlum skal gert kleift að minnka við sig vinnu tímabundið vegna fjölskylduábyrgðar.
 • Starfsmenn skulu eiga kost á hlutastörfum og sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem aðstæður leyfa.
 • Gæta skal að vinnuramma og vinna hann í samráði við starfsfólk eins og auðið er. Starfsmenn skulu ganga að störfum sínum að afloknum veikinda- eða foreldraleyfum eins og kveðið er á um í kjarasamningum.

Kynferðisleg áreitni

 • Kynferðisleg áreitni er ekki liðin. Því eru fyrirbyggjandi aðgerðir og fyrirfram ákveðin viðbrögð nauðsynleg.
 • Fræðsla um kynbundið eða kynferðislegt ofbeldi tengd lífsleiknikennslu í öllum árgöngum.
 • Starfsfólk þarf að vera meðvitað um ábyrgð og færar leiðir ef upp koma tilvik er varða kynferðislega áreitni.
 • Leiðbeiningarbæklingur um „Kynferðislega áreitni á vinnustöðum, Forvarnir og viðbrögð“ þarf að vera aðgengilegur á vinnustaðnum.
 • Rýnt í niðurstöður vinnustaðagreiningar SFS þar sem spurt er um einelti og kynferðislega áreitni og brugðist við ef þurfa þykir.

Telji starfsmaður að jafnrétti sé brotið í Grandaskóla skal hann leita til trúnaðarmanns eða stjórnenda til að leita lausna.

Jafnréttisáætlun Grandaskóla er birt á heimasíðu skólans og er  endurskoðuð og kynnt árlega.