Skip to content

Tölvunotkun

Nemendur Grandaskóla nota tölvutæki ( Chromebook og ipadda) reglulega á meðan þeir stunda hér nám. Hver umsjónarkennari kennir nemendum á tækið  og þau forrit sem henta hverjum árgangi skv. námskrá skólans. Sumir sérgreinakennarar nota tæki með einstaka árgöngum.

Tölvutækin eru hugsuð sem verkfæri til að skrá upplýsingar, miðill til að afla þekkingar og tæki til þjálfunar, sköpunar og miðlunar. Í námskrá kemur fram hvaða þátt er verið að leggja áherslu á í hverjum árgangi. Mikilvægt er að kennarar nýti sér þá möguleika sem felast í tölvunotkun í skólum.

Æskilegt er að í ritvinnslukennslu sé gengið út frá eigin sköpun nemendanna og að þeir vinni út frá eigin texta. Nemendur læra oft best þegar þeir vinna með efni sem tengist þeim sjálfum, s.s. ljósmyndir, eigin teikningar, sögur eða eigin upplifanir. Það sama á við um önnur notkunarforrit.

Kennarar ættu að reyna að samþætta tölvukennsluna eins og hægt er við aðrar námsgreinar. Nýta ætti upplýsingatækni eins og hægt er til kynningar á verkefnum nemenda t.d. þemaverkefnum. Huga þarf að eðlilegu vægi milli þjálfunarforrita og notkunarforrita.  Leggja þarf frá upphafi fyrsta bekkjar áherslu á rétta líkamsstellingu og gæta að því á öllum aldursstigum. Í fyrsta, öðrum og þriðja bekk læra nemendur heiti á ýmsum hlutum tölvunnar og í öðrum bekk hvað sérlyklar lyklaborðsins heita. Leggja ber áherslu á siðfræði tölvunotkunar sbr. sérkafla hér á eftir.

Siðareglur í sambandi við tölvunotkun, tölvusamskipti og veraldarvefinn.

Framboð á efni í tölvutæku formi margfaldast með hverju ári og möguleikar til nýtingar í skólastarfi hafa stóraukist. Mikilvægt er að benda á hversu kærkomin viðbót Netið er í upplýsingaöflun fyrir bæði heimili og skóla. Það er hlutverk okkar sem kennara og foreldra að kenna börnum að nota upplýsingamiðla á uppbyggilegan hátt og kenna þeim að nýta þær upplýsingar sem þar er að finna í verkefnavinnu og til daglegra nota. Það er ekki hægt að sía burt allt óæskilegt efni því að á Netinu er að finna áróður og lygi sem erfitt getur reynst fyrir síur að finna. Við þurfum að velja það efni sem nemendur vinna með og kenna þeim gagnrýni á gott og vont efni. Tölvusamskipti milli nemenda er þýðingarmikill þáttur í skólastarfinu. Nemendur nota hvert annað sem heimildir í upplýsingaöflun, og þau hafa samskipti við ýmsa sérfræðinga í rannsóknarvinnu. Einnig eru tölvusamskipti mikilvæg í tungumálakennslu þar sem nemendur geta notað málið sem þau eru að læra og jafnvel haft samskipti við nemendur sem hafa málið að móðurmáli, sem er ómetanleg hjálp í tungumálanámi. En það er ýmislegt sem ber að varast í tölvusamskiptum. Nemendur þurfa að huga að því að það er einstaklingur sem tekur á móti póstinum/skilaboðum. Manneskja með tilfinningar og væntingar eins og þeir sjálfir. Það getur valdið ótrúlegum vonbrigðum ef sá sem er í samskiptum fær dónalegan og særandi skilaboð. Stundum koma upp mál í skólanum þar sem nemendur eru að senda slíkan póst eða skilaboð. Það sem kennarar geta gert er að brýna fyrir nemendum mikilvægi þess að vera einlæg, heiðarleg og kurteis. Benda skal nemendum á að alltaf er hægt að rekja úr hvaða tæki slíkur póstur kemur, og að viðurlög eru tölvubann í ákveðinn tíma eftir samtal við foreldra. Nemendur ættu aldrei að gefa upp persónulegar upplýsingar, símanúmer eða heimilisfang.

Tölvureglur

Nemendur vinna eftir fyrirmælum kennarans.

Nemendur slá inn notendanafn / leyniorð

Óheimilt er að reyna að tengjast tölvubúnaði skólans með öðru notandanafni en því sem notandi hefur fengið úthlutað.

Innsetning hugbúnaðar er bönnuð

Allt fikt við uppsetningu tölvukerfis skólans og tilraunir til breytinga á því er óleyfilegt.

Ofbeldisleikir eru ekki leyfðir í tölvum.

Nemendur mega ekki nota Facebook

Nemendur prenta eingöngu skjöl með leyfi kennara.

Nemendur sýni kurteisi í notkun tölvupósts og tölvusamskipta og gefi ekki upp persónulegar upplýsingar

Nemendur umgangist tölvurnar að gætni og alúð og sjái til þess að þær skemmist ekki. Nemendur eiga ekki að plokka merkingar skólans af tölvunum. Ef tölva skemmist skal fara með hana tafarlaust til tölvuumsjónarmanns.

Þessar reglur eiga við allar nemendatölvur skólans. Brot gegn þessum reglum getur leitt til tölvubanns í ákveðinn tíma og lokunar á aðgangi að tölvuneti skólans og getur orðið að lögreglumáli, sé brotið alvarlegt.